Breyting á 55 ULTRA

Mótsstjórn hefur með öryggi keppenda og starfsmanna hlaupsins að leiðarljósi tekið ákvörðun um að breyta áður auglýstri keppnisleið 55 km hlaupsins. Er þetta gert í samráði við veðurfræðinga sem fylgst hafa með spám á Glerárdal og Hlíðarfjalli alla vikuna og fulltrúa björgunarsveitarinnar Súlna á Akureyri.
Spáð er köldu veðri, éljum og 8-12 m/s til fjalla sem hefði í för með sér erfiðar aðstæður á stórum hluta 55km leiðarinnar, einkum hæst uppi við Lambáröxl, fremst á Glerárdal og uppi á Híðarfjalli. Gert er ráð fyrir mun skaplegra veðri í og nálægt byggð.
Keppendur þurfa þó ekki að örvænta, ný og spennandi leið hefur verið útfærð fyrir hlaupið í ár sem er 56 km og með 2785 m hækkun. Í stuttu máli er 28 km leiðin hlaupin 2x með örlitlum breytingum þó.
Nánari upplýsingar og kort af nýrri leið eru í tölvupósti til þeirra sem eru skráðir í 55km hlaupið. Unnið er að því að uppfæra upplýsingar á heimasíðu.
Þessi breyting hefur engin áhrif á 18km og 28km hlaupin.